Ármenningar hafa tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn – Þriðji leikur liðanna kl 12 í dag

Þriðji leikur liðanna í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn verður háður með lausu sniði kl 12 í dag þar sem Ármenningar hafa þegar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri í fyrstu tveimur leikjunum.

Á föstudag unnu Ármenningar góðan sigur á SH með 6 marka mun en lengi vel var ekki að sjá að munurinn myndi vera svo mikill. SH-ingar sem hafa misst lykilleikmenn úr liðinu vegna meiðsla, sýndu á köflum agaðan leik og spiluðu sterka vörn. Það vantaði þó að þeir spiluðu beittari sóknarleik.
Með sterkari varamannabekk gátu Ármenningar spilað á hraðanum og komu þó nokkur mörk þeirra úr slíkum sóknum. Lokatölur SH 9, Ármann 14.

Í gær var seinni leikur liðanna spilaður. Aftur dundi ógæfan yfir SH sem missti tvo leikmenn til viðbótar úr liðinu sökum veikinda og meiðsla. Ármenningar keyrðu leikinn strax í gang og skoruðu 5 mörk á móti 1 marki SH í fyrsta leikhluta. SH byraði að klóra í bakkann í öðrum leikhluta og þétti vörnina og kom 2 mörkum inn en Ármann hélt uppteknum hætti og bætti 4 mörkum við. Vörn SH kom í veg fyrir að munurinn yrði meiri í hálfleik.
Þriðji leikhluti var mjög jafn og sýndi SH einstaklega sterkan varnarleik ásamt beittum sóknum. Þrátt fyrir að hafa færri varamenn til innáskiptinga þá hrelldu þeir Ármenninga mikið er þeir voru í sókn og röðuðu inn mörkum. Að lokum þá unnu SH-ingar þriðja leikhluta með 5 mörkum gegn 4 hjá Ármann.
Í fjórða leikhluta var vindurinn úr leikmönnum SH og Ármann hélt áfram að skora. Lokatölur Ármann 16, SH 8.