Seinasti leikur deildarinnar og úrslitakeppnin handan við hornið

Nú í kvöld lauk 9. og seinasta leik deildarinnar á þessu tímabili. Ægir heimsótti hafnfirðingana í SH í hörkuspennandi leik í Ásvallalaug. Innherjamaður hjá SH gaf það upp við fréttamann Sundknattleikur.is að leikmenn liðsins hefðu verið teknir í naflaskoðun eftir tvo tapleiki í röð.
Litlu munaði að Ægi vantaði leikmann upp á til að hafa fullskipað lið en það rættist úr því rétt áður en flautað var til leiks.

SH skoraði fyrsta markið í leiknum en Ægir svaraði með 3 mörkum áður en fyrsta leikhluta lauk. Í öðrum leikhluta var neistinn kominn í SH-inga sem hélt hreinu og bætti að auki 4 mörkum við. Staðan allt í einu orðin 5-3 SH í vil og það þrátt fyrir að tveir leikmenn SH hafi fengið brottvísun í leikhlutanum.

Eftir hálfleik koma á ný baráttukafli hjá báðum liðum og 4 mörk skoruð sem skiptust jafnt niður á liðin.
Í fjórða og seinasta leikhluta komust Ægir-ingar aftur inn í leikinn, skoruðu 3 mörk í röð og náðu að jafna. Þannig hélt þetta áfram en SH náði alltaf að komast marki yfir þangað til 30 sekúndur voru eftir af leiknum en þá skoraði Glenn Moyle jöfnunarmark og staðan 10-10. SH brunaði upp í sókn og passaði að halda boltanum út leiktímann en þegar 11 sekúndur voru eftir af leiknum flautaði dómarinn villu á Ægi og leikmaður nr 11 rekinn útaf í 20 sekúndur. Leikmenn SH börðust við að skapa sér færi sem kom að lokum og skoraði leikmaður nr 6. Kristján Guðnason 11. mark SH þegar einungis 2 sekúndur voru eftir á klukkunni. Skotið kom af rúmlega 6 metra færi en ólánsamur varnarmaður Ægis fékk boltann í hendina sem breytti örlítið um stefnu og endaði upp við samskeytin. Sannarlega dramatískur endir á stórskemmtilegum leik.

Nú er deildinni lokið og ljóst að SH sigraði þessa fyrstu skipulögðu en afar stuttu deildarkeppni í Sundknattleik á Íslandi. 5 sigrar, 1 jafntefli og 3 töp. Ægir má vel við una enda ekki við því að búast fyrirfram að þeir myndu ná að landa 3 sigrum á SH. Miklar framfarir hafa átt sér stað innan þeirra herbúða og ljóst er að það stefnir í magnþrungna úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn eftir tæpar tvær vikur.