Ægir heldur sigurgöngu sinni áfram

SH mætti aftur í heimsókn í Laugardalslaugina mánudagskvöldið 6. Maí staðráðnir í að landa sigri. Liðin voru nokkuð jafnt skipuð að þessu sinni og byrjaði leikurinn af krafi en SH-ingar voru fyrstir til að skora. Það breyttist þó fljótt og settu leikmenn Ægis boltann í nokkrum sinnum í netið en fyrir hálfleik náði lið SH að minnka muninn í 5-4. Jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta og staðan 7-7 þegar flautað var til leiks í þann fjórða. Þreytt og hugmyndasnautt lið SH virtist ekki finna glufu í vörn Ægis. Refsað var fyrir slæman varnarleik SH-inga með 3 mörkum og ekkert sem SH lagði upp með virtist ganga upp. Ægir steig upp úr lauginni með sannfærandi og verðskuldaðan sigur. 10-7 var staðan þegar flautað var til leiksloka.