Ægir sigrar öðru sinni á árinu

Ægir náði í gær að krækja í sinn annan sigurleik á árinu með sigri í leik sem má segja að hafi verið sannkallaður baráttuleikur. Einungis 6 mörk voru skoruð í öllum leiknum.

SH mætti í Laugardalinn, á heimavöll Ægis í gærkvöld með fámennan hóp sökum veikinda leikmanna sinna og höfðu enga varamenn með sér. Ægiringar hafa hinsvegar staðið sig vel í að þjappa saman hópnum sínum í vetur og voru með vel skipað lið leikmanna og varamanna.

Leikurinn byrjaði með látum í 1 leikhluta þar sem Ægir náði boltanum í fyrstu sókninni og keyrði upp leikinn. Leikmenn SH mættu þeim með þéttri vörn sem virtist virka vel framan af því þeir náðu að koma knettinum í netið hjá Ægi og héldu hreinu hjá sér langt inn í 2. leikhluta.

Lítið fór fyrir skyndisóknum sem SH hefur verið þekkt fyrir. Líklega voru þeir að spara orkuna enda ekki með neina varamenn til að skipta inn á fyrir þreytta leikmenn í lauginni.

Mikið var um pústra og smábrot þar sem bæði liðin börðust til sigurs. Greinilega lögðu SH-ingar upp úr öflugum varnarleik í stað hraðasókna og mættu þeir mótherjanum framarlega á vellinum. Þetta útspil átti þó til með að koma í bakið á þeim þegar Ægir náði leikmönnum í gegn og skoruðu dýrmæt mörk.

Þó leikmenn SH hafi nokkrum sinnum fengið góð tækifæri til að skora þá var gæfan ekki með þeim og klúðruðu þeir mörgum flottum færum. Þegar þeir voru manni fleiri virtust þeir þreyttir og skorta einbeitingu til að nýta tímann vel og skutu á markið úr miður góðum stöðum.

Að lokum fór svo að Ægir sigraði leikinn með 4 mörkum gegn 2 og tryggði sér þar með sinn annan sigurleik á árinu.