IGLA 2012

Fyrsta sundknattleiksmótið sem íslensku félögin tvo taka þátt í fór fram dagana 31. maí til 02. júní. Mótið var partur heimsleikum samkynhneigðra í sundíþróttum (IGLA2012.org) en íþróttafélagið Styrmir var gestgjafi mótsins. Styrmir átti gott samstarf með Sundsambandi Íslands og íþróttafélögum SH og Ægis. Kristján Guðnason hjá SH var mótstjóri yfir sundknattleikshlutanum.

10 lið mættu til leiks á mótið og var fyrst keppt í tveimur 5 liða riðlum. Efstu tvö liðin í hvorum riðli kepptu svo í undanrásum en svo mættust hin liðin innbyrðis til að skera úr um endanleg úrslit á mótinu. SH og Ægir sendu sameinað lið til leiks þar sem enginn sundknattleikur hefur verið stundarð hjá Styrmi. Liðið lenti í erfiðari riðlinum að margra mati en stóðu sig með prýði.

Fyrsti leikur liðsins var gegn Toronto Triggerfish (A) sem var með efstu liðum á styrkleikalistanum fyrir mótið. Bæði íslenska liðin og það kanadíska vissu þó ekki hvað beið þeirra þegar í laugina var komið því hvorugt liðanna hafði séð hitt spila áður. Fyrsti leikhluti fór í smá stress hjá íslendingunum og skoraði Toronto Triggerfish 3 mörk áður en flautað var til hlés. Pressa var sett á vörn og sókn og náði íslenska liðið að halda töluvert í við andstæðinginn sem var töluvert reynslumeiri. Lokastaðan í leiknum fór 9-5 sem verður að teljast mjög gott.

Annar leikur liðsins var gegn öðru sterku liði en nú frá New York. Mikið hafði lærst af fyrri leiknum en reynslan og skilningur á spili var töluvert meiri hjá sterku liði New York. Í leikslok skildu þó einungis 4 mörk liðin að en seinasta mark New York kom þegar einungis ein sekúnda var eftir. 10-6 New York í vil.

Þriðji leikur liðsins var gegn liði Washington og var áætlunin að leika sóknarbolta með hröðum sóknum eins og SH er vant að spila. Það gekk eftir og röðuðu leikmenn inn mörkun en vörnin gaf eitthvað eftir á tímum. Fyrsti sigur liðsins var í höfn og sá var glæsilegur. Lokastaða 16-6 fyrir íslenska liðinu.

Leikur gegn London B var seinasti leikur íslenska liðsins í riðlinum og nú hafði gefist tími til að stúdera andstæðinginn vel. Aftur var lagt upp með hraðann sóknarbolta en mikið púður einnig lagt í vörn og að halda London B á sínum vallarhelmning. Það gekk eftir og mörkin hrönnuðust upp. Í þriðja leikhluta voru allir reynslumeiri leikmenn íslenska liðsins hvíldir og allir aðrir fengu að spreyta sig þangað til þreytan sagði til sín. Ákveðið var að skella byrjunarliðinu inn á aftur í fjórða leikhluta til að sjá hversu mörg mörk væri hægt að skora í einum leik. Pressan á lið London B varð meiri og áttu þeir í stökustu vandræðum með að halda boltanum. Markvörður London B þurfti stöðugt að sækja boltann í netið. Lokastaða 19-1, glæsilegasti sigur okkar til þessa.

Eftir riðlakeppnina var íslenska liðið í þriðja sæti og ljóst að þeir myndu mæta London A í leik um fimmta sætið. Öll augu beindust að seinasta leik liðsins í riðlakeppninni til að greina seinasta andstæðinginn á mótinu.

Leikurinn byrjaði vel og var jafn og spennandi framan af. Leikmaður nr. 7 hjá London A var sífellt til vandræða og fékk brotvísanir á íslensku leikmennina ansi oft. Þegar líða tók á leikinn þá fór að sjá þreytumerki á leik enska liðsins og strákarnir okkar pressuðu meira. Lokatölur í leiknum, 10-3 fyrir íslenska liðinu og 5. sætið á mótinu í höfn.

Þrátt fyrir að þetta hafi verið fyrsta sundknattleiksmót sem haldið hefur verið hér á landi svo eldstu menn muna þá voru gestirnir mjög ánægðir í alla staði með framkvæmd mótsins. Umgjörð mótsins var frábær þó tímaramminn hafi verið mjög lítill. 28 leikir voru spilaðir á fjórum dögum og það allt eftir hádegi.

Þeir íslensku áhorfendur sem voru að horfa á sundknattleik í fyrsta skiptið voru mjög hrifnir af þessari nýju (í þeirra augum) íþrótt og nefndu meðal annars að það væri ekkert síðra að horfa á sunknattleik heldur en handbolta. Slík væri spennan og tilþrifin í leiknum. Áhrifin sem þetta mót mun hafa á íþróttina eru rétt að koma í ljós en strax á meðan mótinu stóð ákváðu meðlimir Styrmis að nú væri röðin komin að þeim að stofna sundknattleikslið. Annað sem má nefna er að nú hafa liðin hér heima eignast góð vinafélög sem hafa boðið þeim þáttöku á hinum ýmsu mótum í Bandaríkjunum, Kanada og Evrópu. Ekki slæmt.

1 comment

  1. Fyrsta sundknattleiksmótið sem íslenskt lið tekur þátt í frá steinöld 🙂

Leave a Reply to Kristján Guðnason Cancel reply

Your email address will not be published.